Í ljósi nýjustu fregna velta margir fyrir sér hvort hægt verði að halda sýningarnar í ágúst. Gefið hefur verið út að takmarkanir sem kynntar voru í kvöld, gildi til 13. ágúst. Það er erfitt að sjá fyrir hver þróunin verður og verður fylgst náið með gangi mála. Eins og staðan er í dag, er enn stefnt að halda sýningarnar í ágúst.
Covid setur enn mark sitt á ferðalög milli landa og það hefur verið áskorun að manna dómarapanil á sýningarnar okkar 21. og 22. ágúst.
Í þetta skipti bjóðum við 11 erlendum dómurum til okkar ásamt einum íslenskum, og verða tveir íslenskir dómarar til vara. Listi dómara hefur tekið nokkrum breytingum undanfarnar vikur en vonandi er hann orðinn endanlegur núna. Við gerum ráð fyrir að sýningarnar nú geti orðið töluvert stærri en fyrri ágústsýningar, þar sem mæta þarf uppsafnaðri þörf, en með þessum dómaralista ráðum við við allt að eitt þúsund hunda sýningu hvorn dag ef vel er raðað í hringi. Við treystum okkur hins vegar ekki í stærri viðburð en það að þessu sinni, hvorki að finna fleiri dómara með skömmum fyrirvara né starfsfólk. Af þessari ástæðu hefur verið tekin sú ákvörðun að hámarksfjöldi skráninga á hvora sýningu fyrir sig verði eitt þúsund hundar og mun skráningakerfi loka sjálfkrafa þegar, og ef hámark næst. Það gæti því mögulega gerst fyrir tilgreindan lokadag og lokatíma skráningar, sem er sunnudagurinn 25. júlí kl. 23:59. Við hvetjum því alla sem vilja vera öruggir að skrá tímanlega og hlökkum til að sjá ykkur á Víðistaðatúni í Hafnarfirði í ágúst ![]() Nú nálgast, vonandi, fyrsta stóra sýningin okkar síðan í febrúar 2020! Tvöföld útisýning HRFÍ verður haldin helgina 21.-22. ágúst og fer fram í hjarta Hafnarfjarðar á Víðistaðatúni. Við vonumst til að sjá sem flesta og fagna með ykkur fyrstu sýningunni fyrir allar tegundir í um eitt og hálft ár sem verður glæsileg! Laugardaginn 21. ágúst verður haldin Reykjavík Winner og NKU Norðurlandasýning en sunnudaginn 22. ágúst höldum við alþjóðlega sýningu. Ekki verður sérstök hvolpasýning en hvolpar frá 4-9 mánaða geta keppt bæði laugardag og sunnudag eins og eldri hundar. Keppni ungra sýnenda fer fram báða dagana eins og aðrir dómar. Dómarar helgarinnar verða: Antoan J Hlebarov (Búlgaría), Dan Ericsson (Svíþjóð), Hans Almgren (Svíþjóð), Harri Lehkonen (Finnland), Jose Doval Sanchez (Spánn), Jose Homem de Mello (Portúgal), Laurent Pichard (Sviss), Paula Heikkinen-Lehkonen (Finnland), Svein Erik Bjørnes (Danmörk), Tino Pehar (Króatía), Zorica Blomqvist (Svíþjóð) og Þorbjörg Ásta Leifsdóttir (Ísland). Varadómarar: Sóley Halla Möller og Sóley Ragna Ragnarsdóttir. Búið er að opna fyrir skráningu á sýninguna og eru skráningafrestir eftirfarandi: Gjaldskrá 1: sunnudagurinn 18. júlí, kl. 23:59 Gjaldskrá 2: sunnudagurinn 25. júlí, kl. 23:59 Ef fólki vantar tæknilega aðstoð er það hvatt til að skrá tímanlega, ekki er veitt aðstoð við skráningu eftir að skráningafresti á sýninguna lýkur. Athugið að hámarksfjöldi skráninga á hvora sýningu fyrir sig er 1000 hundar og lokar skráningakerfi sjálfkrafa þegar og ef þeim fjölda er náð. Það gæti því gerst fyrir tilgreindan lokatíma skráningafrests. Umsóknir um meistaratitla, ættbókarskráningar, eigendaskipti, umskráningar á erlendum ættbókum, þurfa að hafa borist félaginu ásamt öllum viðeigandi gögnum og greiðslu Í SÍÐASTA LAGI MIÐVIKUDAGINN 14. JÚLÍ til þess að tryggja að skráning náist. Skráningar á sýningar HRFÍ fara fram í gegnum vefsíðu Hundeweb en einnig er hægt að skrá á skrifstofu HRFÍ á sérstökum skráningarblöðum gegn aukagjaldi til og með 15. júlí. Skrifstofa HRFÍ er opin þriðjudaga til fimmtudaga frá kl. 10-15. Ekki er tekið við skráningum sem berast eftir síðasta skráningadag. Til þess að geta skráð þarf eigandi/eigendur hunds sem skráður er á sýningu HRFÍ að vera virkur félagsmaður, með greitt árgjald, í HRFÍ, eða félagi viðurkenndu af HRFÍ, það ár sem sýningin fer fram. Ef eigandi hefur ekki greitt félagsgjald skal hafa samband við skrifstofu HRFÍ til að ganga frá greiðslu á því áður en skráð er á sýningu. Hundar skráðir á sýninguna með íslenska eigendur skulu vera skráðir í HRFÍ. Aðrir hundar verða að vera skráðir hjá öðrum hundaræktunarfélögum samþykktum af FCI. Skráning og greiðsla þarf að hafa borist félaginu áður en síðasta skráningadegi lýkur. ATH við skráningu í keppni ungra sýnenda er skráð í þann flokk sem kerfið býður upp á og keppendum er síðan raðað í rétta flokka eftir skráningu, flokkarnir eru 10-12 ára og 13-17 ára. Finna má allar upplýsingar um skráningu HÉR. Ekki er hægt að millifæra fyrir sýningagjöldum í vefskráningum og skráningar eru ekki teknar gildar ef greiðsla fylgir ekki. |
|