Helstu breytingar eru þær að frá og með 1. janúar 2025 verður bannað að sýna eyrna- og skottstífða hunda á sýningum HRFÍ. Fram að þeim tíma verður, líkt og áður, einungis heimilt að sýna stífða hunda sem fluttir eru inn frá löndum sem enn leyfa framkvæmd stífingar. Almennt bann við sýningu skott- og eyrnastífðra hunda er í samræmi við reglur annarra Norðurlanda. Frá sama tíma bannar FCI sýningu stífða hunda á alþjóðlegum sýningum, nema ræktunarmarkmið hundakyns geri beinlínis ráð fyrir slíku. Þeim hundakynjum fer þó óðum fækkandi eftir því sem fleiri ræktunarmarkmið eru endurskoðuð með tilliti til þessa.
Reglu um sýningu á hvolpafullum tíkum/tíkum með hvolpa var breytt í samræmi við reglur annarra Norðurlanda. Óheimilt er að sýna hvolpafulla tík sem er sett innan 30 daga, settur dagur miðast við 63 daga frá fyrstu pörun (var áður 42 dagar frá síðustu pörun), og tík sem hefur gotið hvolpum innan við 75 dögum fyrir sýningardag, óháð útkomu gotsins (var áður 56 dagar eftir got).
Þá var bætt inn í reglurnar ákvæðum um alþjóðleg ungliða- og öldungameistarastig, Norðurlandameistarastig og tilheyrandi titla.
Einnig er vakin athygli á breytingu á kaflanum ,,Sérstök ákvæði" um færslu hunda á milli afbrigða (feld-, litar- og stæðarafbrigða) á sýningum. Í stað sérákvæða fyrir einstök hundakyn, gildir nú almenn regla um að telji eigandi hundinn vera annað afbrigði en skráð er í ættbók, getur hann óskað eftir áliti dómara þar um til að færa hann á milli afbrigða á sýningunni, upp að tilgreindum aldri hunds. Gera skal hringstjóra viðvart í tæka tíð og metur dómari hundinn áður en dómar í tegund hefjast. Hundur er endanlega skráður í feldgerð og lit á fyrstu sýningu eftir 9 mánaða aldur og í stærð eftir 15 mánaða aldur. Fram að þeim tíma þarf því að fá slíkt mat á hverri sýningu, telji eigandi hundinn vera annað afbrigði en skráð er í ættbók. Nánari útlistanir á ættbókarskráningu feld-, litar- og stærðarafbrigða má finna í Reglum um skráningu í ættbók.