
Ennfremur var haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands, tileinkað enska aðalsmanninum og einstökum velgjörðarmanni Íslendinga, Mark Watson. Hátíðardegi íslenska fjárhundsins var einmitt valinn fæðingardagur hans, 18. Júlí, en 110 ár voru liðin frá fæðingu hans þegar Degi íslenska fjárhundsins var fagnað í fyrsta sinn.
Þórhildur Bjartmarz hafði veg og vanda að skipulagningu dagskrár dagsins, meðal annars í samvinnu við félaga úr Deild íslenska fjárhundsins, Glaumbæ í Skagafirði, Þjóðminjasafnið, Árbæjarsafn, Landbúnaðarháskólann og Dýralæknafélag Íslands.
Í júlí 2015 lagði Þórhildur til við stjórn DÍF að fæðingardagur Marks Watson yrði framvegis gerður að hátíðisdegi íslenska fjárhundsins og var það samþykkt á ársfundi deildarinnar vorið 2016. Skemmst er frá því að segja að ræktunarfélög íslenskra fjárhunda víða um heim hafa tekið hugmyndinni fagnandi og hyggjast í framtíðinni skipuleggja dagskrá og viðburði þennan dag, tileinkaða íslenska fjárhundinum.
Sennilega hefur aldrei hefur nokkur viðburður á vegum HRFÍ fengið jafn mikla umfjöllun í fjölmiðlum og Dagur íslenska fjárhundsins 2016. Fjölmargar blaðagreinar hafa verið birtar í prent- og netmiðlum, mörgum útvarpsviðtölum hefur verið varpað út og ennfremur var í fréttatímum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 greint frá viðburðinum í máli og myndum, meðal annars í beinni útsendingu frá Óðinstorgi í Reykjavík, þar sem rætt var við Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni, sem um árabil hefur átt íslenskan fjárhund og minntist þess í viðtalinu að Mark Watson hefði gefið Íslendingum fyrsta dýraspítalann.
Veðurblíða var mikil og höfðu menn á orði að það væri í anda Marks Watson, enda sagði hann gjarnan að í hvert sinn sem hann kæmi til Íslands væri veður gott – sama hversu heitt hann óskaði þess að fá að upplifa slæma vetrarhríð!
Gullmerki HRFÍ
Þórhildur Bjartmarz, fyrrum formaður HRFÍ, var sæmd gullmerki Hundaræktarfélags Íslands á málþinginu í Þjóðminjasafni Íslands og var það í 10. sinn sem gullmerki félagsins var veitt.
Stjórnarmenn HRFÍ, Brynja Tomer og Pétur Alan Guðmundsson sæmdu Þórhildi gullmerkinu fyrir hönd félagsmanna.
Nánar verður sagt frá hátíðisdegi íslenska fjárhundsins, málþinginu og afhendingu gullmerkis í grein í næsta tölublaði Sáms.
Texti: Brynja Tomer