
Þann 24.október sl. birtist yfirlýsing frá NKU – Nordic Kennel Union, sem eru samtök norrænu hundaræktarfélaganna í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, og á Íslandi. Þar kemur fram sameiginlegur stuðningur samtakanna við Hundaræktarfélags Íslands í baráttunni við að fá í gegn nýtt áhættumat sem félagið hefur barist fyrir í mörg ár. Í yfirlýsingunni kemur fram hvatning til íslenskra stjórnvalda um að endurskoða núgildandi reglur sem geri m.a. ráð fyrir því að hundar þurfi að vera í einangrun í fjórar vikur. Fullur stuðningur er við mikilvægi þess að tryggja öryggi þegar um nýja sjúkdóma er að ræða, en það verði að vera í samræmi við þá áhættu sem fyrir hendi er. Það þurfi að mæla áhættuþættina út frá bæði mögulegri áhættu við innflutning gæludýra og jafnframt aðrar smitleiðir. Núverandi reglur frá 2003 séu orðnar úreltar, og vert að benda á að t.d. ferðamannafjöldi hingað til lands hefur hækkað úr 320.000 gestum árið 2003 upp í 2.224.603 gesti árið 2017.
Samtökin benda á að matið frá 2003 hafi verið hannað á grundvelli aðferðafræði þar sem núverandi aðferð hafi verið borin saman við engar aðferðir og hafi verið stjórnað af íslenskum sérfræðingum sem höfðu mögulega ekki þá víðsýni og innsýn sem nauðsynleg sé í slíku mati.
Samtökin fagna því að nýtt áhættumat sé unnið fyrir yfirvöld af Dr. Preben Willeberg, sem sé háttvirtur sérfræðingur og eins þeirri staðreynd að gætt hafi verði fyllstu nærgætni við að velja óháðan aðila sem samtökin vonast til að sjái hlutina í skýru ljósi að matinu loknu og fært í hendurnar á yfirvöldum.
Skyldi nýja áhættumatið frá Dr. Willeberg staðfesta að einangrunar sé ekki þörf og hægt sé að tryggja öryggi án einangrunar líkt og kom í ljós á Kýpur og Bretlandi, ætti einangrun að vera með öllu hætt hér á landi. Ef niðurstaðan verði sú að einangrun sé nauðsynleg leggja samtökin áherslu á að hún vari þá eins stutt og mögulegt sé og ekki lengur en sú áhætta sem fyrir hendi sé krefjist. Samtökin segja að velferð dýranna í einangrun sé það sem sé aðalatriðið og í nafni dýravelferðar ætti það að vera möguleiki að leyfa eigendum dýranna að heimsækja þau í einangrun með tilliti til þess að dýrin hafi þörf fyrir að eiga samskipti við eigendur sína.

Pekka er dýralæknir og formaður sænska hundaræktarfélagsins.
Hver er skoðun þín á einangrunarmálum hunda á Íslandi?
,,Í rauninni lýsir yfirlýsingin frá okkur í NKU minni persónulegu skoðun á þessu máli. Í dag, árið 2018, er tækni, mótefni og lyf í dýralæknafræðum orðin það mikil og þvílíkar framfarir hafa átt sér stað í þessum vísindum frá því árið 2003. Það kæmi mér því verulega á óvart ef niðurstaðan verði óbreytt staða í einangrunarmálum á Íslandi. Ég skil ekki hvers vegna t.d. gæludýravegabréf ættu ekki að virka fyrir ykkur eins og fyrir önnur lönd í heiminum. Það er tími til kominn að stjórnvöld hlusti og skilji um hvað málið snýst“.
Pekka er sjálfur menntaður dýralæknir og hefur starfað sem slíkur í fjölda ára. Hann segist vera undrandi á þankagangi íslenskra dýralækna í þessu máli. ,,Tímarnir hafa sannarlega breyst – ég skil ekki þankaganginn í þessu máli“. Ísland hafi ekki verið að glíma við alvarlega sjúkdóma líkt og hundaæði eða hundafár, það séu hér færir dýralæknar og eigendur sem taka ábyrgð á heilbrigði sinna dýra og hugsi vel um þau. Bólusetningar séu góðar og burt séð frá því þá getum við ekki einangrað litla Ísland þótt við vildum. Á sínum tíma hafi parvóvírus smitast um heiminn á einu ári. ,,Það voru ekki hundar sem voru smitberarnir í því alvarlega tilviki – heldur mannfólkið sjálft“.
Einnig nefndi Pekka að hann skildi ekki hvers vegna fólk sem ætti dýr í einangrun mætti ekki heimsækja það á einangrunartímanum. Það væri hæglega hægt að koma því við undir eftirliti. Það væru réttindi dýrsins að eiga möguleika á því að líða sem best á meðan þessari vist stæði. ,,Oft á tíðum er verið að flytja inn unga hunda, jafnvel hvolpa. Þeir eru á viðkvæmasta skeiði ævi sinnar þar sem mikil þörf er á samskiptum við eigendur og umhverfisþjálfun. Ég sé ekki hvaða rök eru þarna að baki“. Verði niðurstaðan sú að einangrun sé áfram nauðsynleg hér á landi sagðist Pekka óska þess að hún yrði eins stutt og mögulegt er og eigendum yrði þá heimilt að heimsækja dýrin sín.
Við þökkum Pekka kærlega fyrir spjallið.
Texti: Svava Björk Ásgeirsdóttir, ritstjóri Sáms
Hér má svo sjá sameiginlega yfirlýsingu NKU landanna
![]()
|