Endurskoðun hefur staðið yfir um nokkurt skeið, en breytingar á fyrri hluta reglnanna voru samþykktar fyrir um ári síðan. Ræktunar- og staðlanefnd félagsins hafði veg og vanda af vinnunni líkt og fyrr og hafði m.a. hliðsjón af reglum annarra Norðurlanda, Bretlands og heimalands hundakyns, þar sem því var viðkomið. Skoðuð var aðgengileg tölfræði um sjúkdóma í einstökum kynjum og öllum ræktunardeildum félagsins gefinn kostur á að koma að athugasemdum og tillögum. Haft var að leiðarljósi að samræma kröfur vegna sömu sjúkdóma og rannsókna og setja íþyngjandi kröfur um vottorð og rannsóknir á ræktendur einungis í þeim tilvikum þar sem sjúkdómur er alvarlegur/skerðir lífsgæði hunds og er þekkt vandamál í kyninu.
Vakin er sérstök athygli á þeirri breytingu að þar sem báðir foreldrar eru með DNA niðurstöðu fríir vegna arfgengs sjúkdóms sem prófa þarf fyrir, telst afkvæmi arfhreint fyrir þeirri gerð. Prófa þarf næstu kynslóð á eftir og gengur svk. N/C/P skráning (free by parentage) því ekki lengur áfram nema eina kynslóð.
Þá eru reglur um augnvottorð rýmkaðar verulega í mörgum tilvikum, en almennur gildistími þeirra verður 25 mánuðir.
Í meðfylgjandi skjölum má finna samanburð á núgildandi 10. kafla reglna um skráningu í ættbók og breytingum sem taka gildi þann 1. janúar 2021, auk hreins skjals með breyttum kafla. Ákvað stjórn að gefa rúman tíma fram að gildistöku breytinganna, en þær munu taka gildi um næstu áramót.
![]()
| ![]()
|