
Undanfari þess að undanþágan var veitt er talsverður og mikil vinna hagsmunaðila liggur að baki. Í starfshópi sem settur var á stofn af Strætó árið 2016 sat meðal annars formaður Hundaræktarfélagsins en hópurinn skilaði af sér niðurstöðum þar sem skilgreind var umgjörð tilraunaverkefnisins. Hópurinn vann verkið út frá sjónamiði um að almenningssamgöngur verði raunverulegur valkostur sem fararmáti innan höfuðborgarsvæðisins og styðji við grænan lífstíl. Umsagnir bárust frá öllum helstu hagsmunaðilum ss. Landlæknisembættinu, Matvælastofnun, Læknafélaginu, Heilbrigðisnefndum á höfuðborgarsvæðinu, trúnaðarmönnum hjá Strætó ofl. og voru þær að mestu jákvæðar í garð verkefnisins.
Undanþágan var veitt með nokkrum skilyrðum og eru nokkur þeirra talin upp hér;
- Framkvæma skal könnun áður en verkefnið hefst meðal farþega og vagnstjóra og jafnframt verður viðhorf kannað þrisvar sinnum á meðan verkefni stendur. Einnig verður framkvæmd lokakönnun eftir að tilraunaverkefninu lýkur.
- Hundar og kettir sem skráðir eru í viðkomandi sveitarfélögum eru heimilaðir í vagna sem og nagdýr, fuglar, kanínur, froskar, skrautfiskar, skriðdýr og skordýr sem heimilt er að halda á Íslandi.
- Farþegi sem náð hefur 18 ára aldri má ferðast með gæludýr og ber hann ábyrgð á dýrinu.
- Gæludýr skulu vera aftast í vagninum og greiðir sá sem ferðast með gæludýr fargjald en fer síðan inn um aftari dyr vagnsins.
- Gæludýr eiga að vera í töskum eða búrum, en einnig má ferðast með hund í ól eða beisli. Ekki má ferðast með gæludýr í útdraganlegum taumi.
- Einungis má ferðast með eitt gæludýr í einu.
- Ekki má ferðast með gæludýr á milli 7-9 að morgni eða á milli kl. 15-18 að eftirmiðdegi.