Verð er 15.000 kr. fyrir félagsmenn en 30.000 kr. fyrir aðra. Innifalið í verði er hádegisverður og snarl. Námskeiðið fer fram í Krikaskóla, Mosfellsbæ.
Skráning fer fram í síma 588-5255 eða á skrifstofu HRFÍ og þarf að greiða námskeiðsgjaldið til að tryggja pláss. Athugið að takmarkaður fjöldi kemst að. Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 11. mars.
Á námskeiðinu mun Anne fara í gegnum ýmsa þætti er við koma ræktun hunda.
Þessir þættir eru meðal annars:
- Uppruni hundsins
- Ræktunarmarkmið og erfðir
- Lykilatriði hins fullkomna hunds
- Erfðagallar og kröfur um heilbrigðisathuganir
- Lykilatriði í fækkun vandamála tengdum erfðum
- Skyldleikaræktun
- Vinsælir undaneldisrakkar
- Fjölskyldutengsl
Við vonumst til að sem flestir nýti sér þetta frábæra tækifæri!
Hér er stutt kynning á Anne:
Anne kynntist hundaheiminum fyrst árið 1967 þegar hún eignaðist Schäfer. Hún byrjaði að rækta tegundina ásamt eiginmanni sínum árið 1976 og stóðu hundarnir sig vel, bæði á sýningum og í vinnu. Aðrar tegundir sem þau hafa átt, ræktað og unnið með eru Amerískur cocker spaniel, Pointer og Norfolk terrier.
Hún hefur dæmt á sýningum um allan heim en árið 1989 fékk hún dómararéttindi á Schäfer. Í dag dæmir hún allar tegundir í tegundahópum 1 og 5 ásamt fjölmörgum tegundum í tegundahópum 2, 7 og 8.
Anne er matsmaður í skapgerðarmati hjá sænska hundaræktarfélaginu (SKK). Einnig hefur hún starfað sem hundaþjálfari og séð um menntun hundaþjálfara fyrir SKK. Hún hefur verið með fjölmörg námskeið fyrir SKK, bæði fyrir ræktendur og hinn almenna félagsmann.