
Lilja Dóra hefur starfað í og fyrir félagið í hjartnær 30 ár og hefur hún lagt mikið af mörkum á nánast öllum sviðum félagsins. Undanfarin ár hefur Lilja Dóra verið sýnilegust hinum almenna félagsmanni sem sýningastjóri á sýningum félagsins en hún er lykilmanneskja í því starfi. Lilja situr í einangrunarteymi félagsins, sýningarstjórn, ræktunar- og staðlanefnd, og sýningadómaranefnd. Þá hefur hún komið að skrifum á regluverki Hundaræktarfélagsins, veitt stjórnum almenna lögfræðiráðgjöf sem og aðstoðað við bréfaskriftir. Hún er ötul baráttumanneskja fyrir réttindum hundeigenda og hefur oft verið talsmaður Hundaræktarfélags Íslands. Lilja Dóra er sjálf sýningadómari og hefur réttindi til að dæma 6 hundakyn hún lærði einnig hundaþjálfun og var kennari við Hundaskóla Hundaræktarfélags Íslands og Hundaskólann á Bala í mörg ár. Hún hefur réttindi sem sporaleitardómari og kennari sem og réttindi til að dæma hlýðni, stig I og II.
Stjórn Hundaræktarfélagsins þakkar Lilju Dóru einstakt framlag í þágu félagsins í gegnum árin og er óhætt að segja að hún sé vel að heiðrinum komin.