Félag ábyrgra hundaeigenda (FÁH) og Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) fagna vinnu stýrihóps um þjónustu við dýraeigendur enda margt jákvætt sem fram kemur í skýrslunni. Taka félögin heilshugar undir þá tillögu að leyfisskylda verður felld niður enda telja félögin þá aðferð, sem hingað til hefur verið beitt að banna hundahald en heimila undanþágur með veitingu leyfa, ranga. Hundahald er eðlilegur þáttur í samfélagi manna og bann eða sérstakar skilyrtar leyfisveitingar er ranglæti sem hundaeigendur hafa verið beittir um árabil og er orðið löngu tímabært að leiðrétta (sjá bls. 5). Hugmyndir um samstarf við frjáls félagasamtök og tillögur um að bjóða út einstaka þjónustuþætti til Dýrahjálpar, Villikatta, Kattholts og Villikanína er að okkar áliti mjög jákvætt skref (sjá bls. 6). Það er einnig jákvætt og raunar skynsamlegt og eðlilegt að borgin hugi að öryggi hunda og eigenda þeirra við gerð hjólreiðaáætlunar (sjá bls. 6). Við fögnum því einnig að Reykjavíkurborg viðurkenni loks þá staðreynd, sem við hundaeigendur höfum haldið fram í áraraðir, að Hundasamfélagið á Facebook sinni því öfluga starfi að finna eigendur óskilahunda og hefur í raun sinnt þeim hluta starfs hundaeftirlitsmanna (sjá bls. 19). Við styðjum þá tillögu heilshugar að málefni katta verði færð frá Meindýraeftirliti (sjá bls. 4) enda erum við hundaeigendur margir hverjir líka kattaeigendur, og er það afar óviðeigandi að þessi ástkæru gæludýr séu flokkuð sem „meindýr“ innan borgarinnar.
Eftirfarandi tillaga stýrihópsins á bls.16 í skýrslunni er einnig afar jákvæð og felur í sér viðurkenningu á því að hundahald sé eðlilegur hluti af samfélaginu sem hlúa beri að, rétt eins og gert er fyrir aðra hópa, eins og hjólreiðamenn, hestamenn og fleiri:
„Lagt er til að við gerð aðal- og deiliskipulags verði hugað sérstaklega að því að tryggja aðgang íbúa að opnum svæðum þar sem hægt er að stunda uppbyggilega útivist með hunda. Hundahald verði skilgreint sem frístundaiðkun og lýðheilsumál hundaeigenda og aðstaða hunda sem dýravelferðarmál.”
Þótt með vinnu stýrihópsins og útgáfu skýrslunnar sé stigið stórt jákvætt skref í þá átt að viðurkenna hundahald er þar að finna atriði sem félögin vilja gera athugasemdir við og koma á framfæri ábendingum og tillögum um það sem betur mætti fara.
Gagnrýni FÁH og HRFÍ
Í gegnum tíðina hafa FÁH og HRFÍ haldið uppi gagnrýni á núverandi fyrirkomulag hundamálefna hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum. Þessi skýrsla staðfestir þá gagnrýni okkar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án þess að slíkt eftirlit væri virkt, er meðal atriða sem við höfum bent á enda má draga í efa að það sé lögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Hundaeigandi sem sýnir ábyrgð og fylgir öllum reglum er einfaldlega ekki undir neinu eftirliti enda er það sýnilega óþarft.
Hlutverk hundaeftirlits
Í skýrslunni segir orðrétt (bls.19):
„Meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“
Ofangreind athugasemd skýrslunnar staðfestir að ekki sé um eiginlegt hundaeftirlit að ræða heldur eftirlit með skráningum og varla getur talist eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái. Við opinbert eftirlit þarf að fara fram mat á þörf slíks eftirlits og fæst ekki séð hver þörf eftirlits er með skráningum hunda að því er virðist í þeim tilgangi einum að innheimta frekari gjöld til að standa undir enn frekara eftirliti með skráningum.
Í þessu samhengi vilja félögin góðfúslega benda á skyldur opinberra aðila til að meta þörf og gildi eftirlits og endurmeta þá þörf með jöfnu millibili. Heimildir til eftirlits eru því ekki ótakmarkaðar og slíkt eftirlit verður að vera í lögmætu markmiði, eins og að tryggja öryggi og heilbrigði almennings. Enda þótt hægt sé að fallast á að eftirlitið hafi á einhverjum tímapunkti átt rétt á sér er ljóst að eins og því er háttað í dag er það ekki lengur. Má í þessu sambandi vísa til laga um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999. Mjög margir óskráðir hundar eru í Reykjavík og fólk, sem er að fá sér aðra eða þriðju kynslóð af hundum og veit hvernig eftirlitinu hefur verið háttað, sér ekki nokkra ástæðu til að skrá hundana sína. Eins er fólki gert að kaupa vottorð hjá dýralækni um að hundur sé dauður til að hægt sé að afskrá hann sem er í hæsta máta undarlegt. Í skýrslunni kemur fram að talið sé að um 9000 heimili haldi hunda í borginni og við teljum að sú ágiskun sé nokkuð nærri lagi. Á sama tíma eru skráðir hundar um 2000 sem þýðir að um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu (sjá bls.19). Í skýrslunni er líka tekið fram að gjöldin „...séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“ Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald. Hlýtur gjaldtakan því að vera skattheimta sem verður að byggja á lögum. Samkvæmt því er gjaldið ólögmætt. Þjónustugjald má ekki innheimta umfram kostnað við þjónustuna en sá áskilnaður krefst ákveðins gegnsæis. Því miður hefur borgin ekki sinnt þeirri skyldu að veita upplýsingar um kostnað á bak við gjaldið þegar eftir því hefur verið leitað. Viðurkenna verður að hér hefur stjórnsýslan verið í besta falli óvönduð. En burtséð frá þeirri staðreynd, þá staðfesta ummælin gagnrýni okkar á þessi gjöld og sýnir hvað skráningar- og eftirlitsgjöld eru langt frá því að vera sanngjörn og réttmæt. Eftir lestur skýrslunnar er líka staðfest að hundaeigendur eru einu dýraeigendurnir í borginni sem eru látnir greiða skráningar- og eftirlitsgjöld. Þarna er hvorki gætt meðalhófs né jafnræðis og þessi gjöld eru þess eðlis að það er ekki nokkur hvati fyrir Reykjavíkurborg að gæta neins hagræðis því gjöldunum er velt beint yfir á hundaeigendur. Það er heldur enginn hvati fyrir hundaeigendur að greiða þessi gjöld þegar skýrslan staðfestir ólögmæta og ómálefnalega gjaldtöku. Slíkt grefur undan átrúnaði og virðingu hundafólks fyrir hundaeftirlitinu og skráningu hunda almennt.
Ýmislegt vantar í skýrsluna
Í viðauka 1 er ekki tekið fram hve margir hundar voru fangaðir undanfarin ár. Ástæðan er væntanlega sú að gríðarleg fækkun hefur orðið á þeim málum. Ekki er fjallað um bitmál, hvorki fjölda né í hvaða farvegi þau mál eigi að vera í framtíðinni. Það er heldur ekki kostnaðargreining á kostnaði við núverandi skráningareftirlit, t.d. vantar í skýrsluna að taka fram að hundaeigendur borga leigu á skrifstofum í Borgartúni fyrir starfsfólk hundaeftirlitsins sem nemur rúmlega 150.000 kr. á starfsmann á mánuði. https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/28e_svar_her.pdf
Tryggingar, heilsa og þjónusta við hundaeigendur
Ekki er farið í greiningu á því hvort það borgi sig að fella niður skyldu um ábyrgðartryggingu á hundum. Tjónamál eru sárafá eða að meðaltali tvö á ári (viðauki I, bls. 25) en hundaeigendur greiða tæpar 7 milljónir króna í iðgjöld árlega. Einnig vantar í skýrsluna hve mörg tjónamál falla undir sjálfsábyrgð og hve mörgum tjónabeiðnum er hafnað. Það er líka mjög einkennilegt að skylda eingöngu hundaeigendur til að ábyrgðartryggja hundana sína en hestaeigendur í borginni fá að velja hvort þeir ábyrgðartryggi hrossin sín. Sérstaklega í ljósi þess að tjón af völdum hrossa geta verið umtalsvert meiri en af hundum. Hér mætti einnig taka fram að kattaeigendur eru heldur ekki skyldugir að ábyrgðartryggja kettina. Ábyrgðartrygging er einungis skylda fyrir hunda.
Þeirri hugmynd er velt upp að sjúkratrygging hunda verði innifalin í skráningargjaldi (sjá bls. 17). Að okkar mati er það afar vanhugsuð tillaga. Sjúkratryggingar eru annars eðlis en ábyrgðartryggingar. Þær kosta mismikið eftir tegundum, gilda ekki lengur en til 10 ára aldurs og hundar eldri en 5 ára fá ekki nýtryggingu. Sumir hundar eru ekki einu sinni tryggingahæfir að mati tryggingafélaga. Sjúkratryggingar eru einfaldlega mál hvers hundaeigenda eins og hverjar aðrar tryggingar sem fólk kaupir. Þessi hugmynd skerðir möguleika fólks á að velja á milli tryggingafélaga og mun að öllum líkindum ekki verða vinsæl hjá hundaeigendum né tryggingafélögum.
Þessar tryggingar telur stýrihópurinn upp sem þjónustu við þá hundaeigendur sem skrá hunda sína. Einnig telur hópurinn upp þau „fríðindi“ að handsömunargjaldið verði lægra eða ekkert fyrir skráða hunda (sjá bls. 5). Árið 2017 voru tekjur borgarinnar af handsömunargjaldi hunda 180.000 kr. Það samsvarar handsömun sex hunda. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/03/03/faekkad_fyrir_tilstilli_facebook/
Samkvæmt þeim tölum væru það því u.þ.b. sex hundaeigendur á ári sem fengju að njóta þeirra „fríðinda“ að greiða lægra eða ekkert handsömunargjald.
Að gefnu tilefni vilja hundaeigendur benda á að tillögur um aukna þjónustu við hundaeigendur réttlæta ekki innheimtu sérstaks gjalds umfram aðra dýraeigendur.
Á bls. 19 í skýrslunni er lagt til að í stað árlegrar ormahreinsunar hunda verði farið fram á árlega heilbrigðisskoðun dýralæknis. Við fögnum því að borgin krefjist ekki lengur árlegrar ormahreinsunar. Þetta eru leifar af gamalli hundasamþykkt og við höfum bent á það margoft að árleg ormahreinsun auki hættu á lyfjaónæmi sníkjudýra. En það að borgin sé sérstaklega að taka það fram að hundar fari árlega í heilbrigðisskoðun til dýralæknis er algjör óþarfi þar sem 6. og 14. gr í Reglugerð um velferð gæludýra sér um að tryggja þessa þætti.
Upphaf skráningarskyldu hjá sveitarfélögum má rekja til hundahreinsunar vegna sullaveiki eins og sjá má í „Lögum um hundahald og varnir gegn sullaveiki“ nr. 7/1953. Í ljósi þess að leggja eigi niður skyldu um árlega ormahreinsun, fellur þessi skráningarskylda um sjálfa sig.
Leyfisskráningar á hundum í Reykjavík hófust 1984 á hundum sem fengu undanþágu frá hundabanni. Núna er ekki bara búið að leyfa hunda frá árinu 2006 heldur á núna að fella niður leyfisskyldu skv. tillögu stýrihópsins. Það er því ekkert sem réttlætir lengur þessa skráningu og allar forsendur brostnar.
Dýraeftirlit Reykjavíkur
Það að stofna Dýraeftirlit hljómar vel í fyrstu. Þetta er að mörgu leyti skynsamleg hugsun og margt í skýrslunni jákvætt miðað við núverandi fyrirkomulag. En þegar kafað er dýpra kemur í ljós að þessi hugmynd undirstrikar það misrétti sem hundaeigendur eru og hafa verið beittir áratugum saman.
Eftirfarandi tafla sýnir glögglega þetta misrétti:
Samkvæmt stýrihópnum er gert ráð fyrir undir nýju Dýraeftirliti að hundar verði áfram skráningarskyldir og að áfram verði innheimt gjald af hundaeigendum. Þess sama verður ekki krafist af katta- eða hestaeigendum og því gert ráð fyrir að hundaeigendur einir standi undir kostnaði við Dýraeftirlit. Hið nýja Dýraeftirlit verður áfram eftirlit með skráningum hunda með tilheyrandi skriffinnsku og kostnaði. Þetta gagnrýnum við harðlega og bendum á að skráning hjá sveitarfélagi sé óþörf og tíðkist ekki löndunum í kring þar sem skráning í landlægan örmerkjagagnagrunn þykir fullnægjandi.
Hvers vegna þarf borgin að vita nákvæman fjölda hunda?
Von skýrsluhöfunda um að stofnun Dýraeftirlits muni fjölga skráðum hundum (sjá bls. 3) er einungis óskhyggja að okkar mati og mun sú skráning aldrei nálgast hlutfall skráðra í Dýraauðkenni. Stýrihópurinn telur að með tillögum sínum skapist aukin sátt um gæludýrahald í borgarsamfélaginu (sjá bls. 23) en það skapast ekki aukin sátt þegar afskipti borgarinnar og gjaldtaka er mismunandi eftir dýrategundum.
Hundasamþykkt Reykjavíkur byggir á „Reglugerð um hundahald í Reykjavík“ sem gefin var út árið 1984 og var ætlað að fækka hundum í Reykjavík. Haft var eftir Oddi R. Hjartarsyni hjá Heilbrigðiseftirlitinu 1984 að hann vonaðist til að reglugerðin leiddi til þess að hundahald legðist af í Reykjavík. Kvað hann fólk geta haft ketti eða fugla ef það á annað borð þyrti að hafa gæludýr. https://timarit.is/page/3588256
Það eimir enn af þessu viðhorfi í skýrslu stýrihóps um nýtt Dýraeftirlit þar sem hundaeign virðist óæskilegri en önnur gæludýraeign, með aukinni kröfu um skráningar, eftirlit, ábyrgðatryggingu og hærri gjaldtöku.
Því er ósvarað hvers vegna sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg þarf yfir höfuð að vita hve margir hundar og hundaeigendur eru í borginni. Borgin hefur ekki heldur yfirsýn yfir fjölda katta eða fjölda kanína í borgarlandinu. Sú vitneskja að hátt í 7000 heimili haldi hund sem borgin veit ekki um sýnir, svo ekki er um villst, að þetta eftirlit er með öllu óþarft. Að sama skapi má spyrja hvers vegna ekki sé haldin skrá yfir þá sem eiga reiðhjól í Reykjavík? Skiptir það einhverju máli hversu margir hjólaeigendur eru í borginni? Er ekki bara nóg að vita að þeir eru fjölmargir og þurfa þjónustu, hjólastíga og aðra aðstöðu?
„Í samtölum við hagsmunaaðila í hundasamfélaginu kom ekki fram sérstök krafa um að hundagjöld yrðu felld niður…“ (bls. 17)
Við verðum að gagnrýna þá fullyrðingu að hagsmunaaðilar hafi aldrei gert kröfu um að hundagjöld verði felld niður. Við höfum gagnrýnt þessa gjaldtöku margoft í gegnum tíðina og óskað eftir nánari skýringum á þeim en höfum hvorki fengið efnisleg- né málefnaleg svör við okkar fyrirspurnum. Við höfum margoft lagt til að hundaleyfisgjöld verði felld niður og gerum það enn og aftur í þessu plaggi, eins og nánar verður útlistað hér neðst.
Hvernig er staðan í nágrannalöndunum?
Stýrihópurinn leitaði til ýmissa hagsmunahópa og sérfræðinga innanlands en láðist að líta til nágrannalandanna með tilliti til hvernig málum er háttað þar. Það þarf nefnilega ekki alltaf að finna upp hjólið og gæludýrahald innan borgarmarka hefur mun lengri sögu í nágrannalöndunum en í Reykjavík. Það væri nærtækast að líta til þeirra sem meiri reynslu hafa af þessu málum.
Hin norðurlöndin og Bretland lögðu öll niður skráningar hjá sveitarfélögum eftir að landlægir örmerkjagagnagrunnar komu til sögunnar. Það þótti ekki svara kostnaði að ganga á eftir skráningum í sveitarfélagi, auk þess sem tvískráning þótti óþörf.
Danmörk:
Í Danmörku er landlægur örmerkjagagnagrunnur sem kallast ‘Dansk hunderegister’ og svarar til ‘Dýraauðkennis’ hér á landi. Allir hundar eru skráðir í þann gagnagrunn, en sveitarfélög sjá ekki um að skrá hunda. Gagnagrunnurinn veitir sveitarfélögum ekki aðgang að upplýsingum um alla hunda eða hundaeigendur, enda stríðir það gegn lögum um persónuvernd (svör sem við fengum frá Dansk Hunderegister). Tilkynningar um lausa hunda fara til lögreglu eða dýraathvarfa og samstarf er á milli lögreglu og þessara athvarfa. Athvörfin (t.d. Dyreværnet og Dyrenes Beskyttelse) eru rekin með styrkjum frá almenningi og ríki og sveitarfélögum. Sem dæmi styrkir danska ríkið hin ýmsu dýraverndarsamtök um 55 milljónir ísl.kr. árlega.
Finnland:
Finnland er með mjög áþekkt kerfi og Danmörk, lausir hundar eru tilkynntir eða afhentir lögreglu eða athvörfum. Flest umdæmi hafa athvarf sem er styrkt af sveitafélögum sem nýta sér þjónustu þess og svo almenningi.
Í stað Hundaeftirlits og Dýraeftirlits - Tillaga FÁH og HRFÍ:
- Hundaleyfisgjöld verði felld niður.
- Skráningarskylda hunda hjá sveitarfélagi verði felld niður.
- Störf hundaeftirlitsmanna verði lögð niður.
- Sveitarfélög veiti fé til dýraverndarsamtaka: Dýrahjálpar, Villikatta, Kattholts og Villikanína - til að sinna skyldu sinni varðandi handsömun og vörslu gæludýra og villtra dýra í neyð.
- Samvinna verði milli lögreglu, Dýrahjálpar og Hundasamfélags varðandi lausagöngu hunda.
- Nýr gagnkvæmur samfélagssáttmáli hundaeigenda og sveitarfélaga komi í stað núverandi hundasamþykkta.
Borgin er nú þegar að styrkja Kattavinafélagið/Kattholt árlega og því eru fordæmi fyrir slíkum styrkjum til félagasamtaka. Borgin hefur hingað til ekki styrkt Dýrahjálp sem þó hefur aðstoðað borgina í fjölda mála. Þetta eru oft og tíðum flókin og erfið mál sem Hundaeftirlitið ræður ekki við og málin enda því hjá Dýrahjálp.
Dýrahjálp eru sjálfboðaliðasamtök sem hafa verið starfandi síðan árið 2008 og hafa verið rekin áfram í sjálfboðavinnu og með hjálp lítilla styrkja frá einstaklingum og fyrirtækjum. Sveitarfélög og MAST reiða sig meira og meira á aðstoð frá samtökunum án þess að viðeigandi fjármagn fylgi. Nú er svo komið að Dýrahjálp þarf að taka skrefið og verða að fullgildu dýraathvarfi með launað starfsfólk og aðstöðu til að halda dýr líkt og tíðkast erlendis. Forsvarsmenn Dýrahjálpar hafa reiknað út að til að vera með lágmarksaðstöðu og þrjá starfsmenn á launum þyrfti 27-28 milljónir kr. árlega. Annar rekstrarkostnaður yrði fjármagnaður með fjáröflun og styrkjum. Sé litið til þess að Dýrahjálp sinnir öllu landinu er þessi fjárhæð, 27-28 milljónir, afar lág og mun hagstæðari en rekstrarkostnaður hundaeftirlita allra sveitarfélaga landsins. Réttast væri að leggja niður starfsgildi þeirra fimm hundaeftirlitsmanna sem sinna höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögin sameinist þess í stað um að styrkja Dýrahjálp til að halda úti dýraathvarfi.
Við vonum að þessar tillögur okkar verði skoðaðar af alvöru til þess að raunveruleg sátt skapist um dýrahald í borginni og að alvöru samráð verði haft við FÁH og HRFÍ við frekari vinnu í þessum málaflokki.
Virðingarfyllst,
stjórn Félags ábyrgra hundaeigenda og stjórn Hundaræktarfélags Íslands
Reykjavík 11. nóvember 2020