
Helgina 12.-13. nóvember mæta 611 hreinræktaðir hundar af 80 hundategundum í dóm á alþjóðlegri hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands.
Sýningin er haldin í reiðhöllinni í Víðidal og hefjast dómar kl. 9:00 árdegis báða daga og standa fram eftir degi. Áætlað er að úrslit á báða hefjast um kl. 14:00 og þá kemur í ljós hvaða hundar bera af að mati dómara. Megintilgangur hundasýninga er að meta hundana út frá ræktunarmarkmiði hvers kyns og leiðbeina ræktendum þannig í starfi sínu.
Afreks- og þjónustu hundar ársins verða kynntir á sunnudeginum fyrir úrslit.
Fimm dómarar frá jafn mörgum löndum dæma í fimm sýningarhringjum samtímis.
Gestum gefst kostur á að kynnast hundum og ræða við hundeigendur og sýnendur, auk þess sem á staðnum er fjöldinn allur af sölu- og kynningabásum þar sem ýmis tilboð verða í gangi.
Ungmennadeild HRFÍ verður með veitingasölu á fyrstu hæð hjá miðasölu báða dagana.
Hér má sjá dagskrá fyrir báða dagana og dagskrá úrslita.

Öflugt barna- og unglingastarf er starfrækt innan félagsins og að þessu sinni taka 29 ungmenni þátt í keppni ungra sýnenda, föstudagskvöldið 11. nóvember í reiðhöllinni í Víðidal og hefst dómur kl.18:00 á yngri flokk. Svante Frisk frá Svíþjóð dæmir keppnina.
Á sama stað verður hvolpakeppni HRFÍ og Royal Canin, en alls keppa 160 hvolpar á aldrinum 3-9 mánaða af 38 mismunandi tegundum. Dómar hefjast kl.18.00 og munu standa fram eftir kvöldi en úrslit eru áætluð um kl. 21.00.
Hér má sjá dagskrá hvolpasýningar.
Ungmennadeild HRFÍ verður með létta veitingasölu inni í sal á hvolpasýningunni.