Royal Canin hvolpasýning HRFI og keppni ungra sýnenda Öflugt barna- og unglingastarf er starfrækt innan félagsins og að þessu sinni taka 28 ungmenni þátt í keppni ungra sýnenda, föstudagskvöldið 26. febrúar í reiðhöllinni í Víðidal og hefst dómur kl.18:00 á yngri flokk. Dómari í þeirri keppni verður hinn virti atvinnusýnandi Marc Linnér frá Svíþjóð. Á sama stað verður hvolpakeppni HRFI og Royal Canin, en alls keppa 128 hvolpar á aldrinum 3.-9.mánaða af 37 mismunandi tegundum. Dómar hefjast kl.19.00. Dómarar eru Dusan Paunovic (Serbíu), Leif Ragnar Hjort (Noregi), Jean-Jacques Dupas (Frakkland) og Tino Pehar (Króatíu). Vinnuhundadeild verður jafnframt með Brons, Hlýðni 1 og Hlýðni 2 próf á sýningasvæðinu sem er áætlað að hefjast kl.16.00. Dómari er Albert Steingrímsson. | Alþjóðleg sýning Helgina 27. – 28. febrúar mæta 623 hreinræktaðir hundar af 83 hundategundum í dóm á alþjóðlegri hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands. Sýningin er haldin í reiðhöllinni í Víðidal og hefjast dómar kl. 09:00 árdegis báða daga og standa fram eftir degi. Áætlað er að úrslit á báða hefjast um kl. 15:00 og þá kemur í ljós hvaða hundar bera af að mati dómara. Megintilgangur hundasýninga er að meta hundana út frá ræktunarmarkmiði hvers kyns og leiðbeina ræktendum þannig í starfi sínu. Fimm dómarar frá fimm löndum; Serbíu, Króatíu, Noregi, Frakklandi og Íslandi dæma í fjórum eða fimm sýningarhringjum samtímis. Gestum gefst kostur á að kynnast hundum og ræða við hundeigendur og sýnendur, auk þess sem á staðnum er fjöldinn allur af sölu- og kynningabásum þar sem ýmis tilboð verða í gangi. Ungmennadeild verður með sjoppusölu á fyrstu hæð báða dagana. Hér má sjá dagskrá báða dagana og dagskrá í úrslitum. |
Comments are closed.
|
|