Nýtt sýningaár er framundan og markið er sett á að gera enn betur á öllum sviðum! Fjörið hefst strax í janúar með hvolpasýningu sem haldin verður í Keflavík. Norðurljósa sýningin verður á sínum stað í mars og við ætlum að láta reyna aftur á tvöfalda sýningu í júní. Eins frábærar og tvöfaldar sýningar eru, hafa þær reynst okkur þungar að manna og má segja að framhaldið velti á því hvort hinir frábæru sjálfboðaliðar félagsins valdi verkefninu. Ágústsýningin verður áfram einföld og að þessu sinni með Gay Pride þema. Við höldum síðan inn í veturinn með haustsýningu í október og endum árið á Winter Wonderland sýningunni í nóvember þar sem við viljum sjá alla í jólapeysum!
HRFÍ hefur fengið það hlutverk að halda árlegt Norðurlandamót í keppni ungra sýnenda, samhliða nóvember sýningu félagsins, þar sem landslið allra Norðurlanda keppa sín á milli í einstaklings- og liðakeppni. Þetta er áfangi fyrir félagið í NKU samstarfinu og við ætlum að sjálfsögðu að leysa þessa áskorun með glæsibrag. Til að koma öllu fyrir í reiðhöll Spretts í Kópavogi, hefur verið ákveðið að engir hvolpaflokkar verði að þessu sinni á sýningunni. Það kemur vonandi ekki að sök, því stefnt er að því að halda aðra hvolpasýningu ársins eftir mitt árið og svo aftur í janúar 2024. Dagsetningar eru ekki festar og verða auglýstar síðar.
Annars er hægt er að sjá allar dagsetningar og skráningafresti inni á www.hundavefur.is og undir sýningadagatalinu hér á hrfí-síðunni og þar er einnig hægt að sjá dómaraáætlun ársins sem er sett fram með öllum hefðbundnum fyrirvörum um dómarabreytingar og skráningar í tegundum.
Gleðilegt sýningaár!