“8. gr. Þjálfun, keppni og útbúnaður.
Við þjálfun, keppni, vinnu til gagns og sýningar skal þess gætt að ofbjóða ekki þoli og þreki dýrs. Verja skal dýr fyrir óþarfa áreiti og koma skal í veg fyrir aðstæður sem gætu valdið óþarfa ótta, óþægindum eða skaða. Fyrir vinnu, keppni og sýningar skal gæta þess að dýr hafi hlotið viðeigandi þjálfun og undirbúning. Gæta skal þess að hávaði á keppnis-, vinnu- eða sýningarsvæði dýra fari að jafnaði ekki yfir 65 dB. Ekki skal nota lasburða eða veik dýr, eða dýr sem komin eru að goti eða með mjög ung afkvæmi við þjálfun, keppni, sýningu eða vinnu til gagns.
Óheimilt er að nota hvers konar tæki eða tól, eða beita þau dýr sem þjálfa skal, neinum þeim aðferðum eða þvingunum, sem valda þeim sársauka eða hræðslu. Notkun, sala og dreifing á hvers konar útbúnaði sem gefa dýri rafstuð eða valda verulegum óþægindum er bönnuð. Óheimilt er að nota ósýnilegt rafgerði fyrir gæludýr. Notkun, sala og dreifing á hálsólum með gadda eða hvassa kanta innan á ól er bönnuð. Hálsól skal vera úr slíku efni og þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi eða skaðað dýrið á annan hátt.“
Matvælastofnun kýs að gera athugasemd við notkun óla sem geta herst ótakmarkað að hálsi dýrsins og telur stofnun að notkun slíkra óla samræmist ekki 8. gr. reglugerðar. Stofnunin bendir á að samkvæmt 37. gr. laga um velferð dýra er stofnuninni heimilt að leggja hald á slíkan búnað. Til að hálsólar og sýningaólar hunda séu ekki af þeirri gerð sem eru af stofnuninni metnar andstæðar velferð dýra, þarf að þeirra mati að tryggja að á ólunum sé stoppari svo ólin geti ekki herst um of að hálsi dýrsins.
Matvælastofnun bendir félagsmönnum Hrfí á, að búast megi við að aukið eftirlit verði með ákvæðum laga og reglugerðar um velferð gæludýra og að þeim ákvæðum verði framfylgt.
Félagið kemur þessum skilaboðum hér með á framfæri.