
Sóttvarnarlæknir hefur í leiðbeiningum sínum til almennings lagt áherslu á að aðilar máti starfsemi sína innan gildandi reglna og finni leiðir til að lifa með þeim, enda séu þær líklega komnar til að vera um eitthvert skeið.
Það verður áskorun að halda tvær 800 hunda sýningar þann 22. og 23. ágúst n.k. en sýningastjórn félagsins hefur unnið að því undanfarna daga að setja upp skipulag sem rúmast innan sóttvarnarreglna. Stjórn félagsins fundaði í gærkvöldi með sýningastjórn og ákvað í framhaldi að halda sýningarnar með breyttu sniði. Ákveðið var að gefa þeim félagsmönnum sem þess óska tækifæri á að afskrá hunda sína og fá endurgreiðslu á sýningagjöldum, þó að frádregnum áföllnum kostnaði vegna skráningar.
Breyting á fyrirkomulagi sýningar:
- Sett verða upp þrjú sóttvarnarsvæði, hvert með 3-4 dómhringjum. Stranglega bannað verður að fara á milli sóttvarnarsvæða.
- Einn aðili má fylgja hverjum hundi inn á sóttvarnarsvæði. Sérstakur inngangur og útgangur verður á hverju svæði. Fylgst verður með fjölda á hverju svæði og gætt að hann fari ekki umfram 100.
- Sýningunni verður skipt niður í "holl" innan hvers sóttvarnarsvæðis, þannig að dómur hefst á hverju svæði á tilteknum auglýstum tíma í hverju „holli“. Á milli "holla" verður hvert sóttvarnarsvæði rýmt og borð og aðrir snertifletir sótthreinsaðir áður en hleypt er inn í næsta "holl".
- Virða skal 2 metra reglu eins og kostur er en að auki skulu allir sýnendur bera andlitsgrímu í dómhring.
- Mælst er til þess að ekki sé mætt með hunda á sýningasvæði fyrr en skömmu áður en "holl" þeirra á að byrja.
- Þá er mælst til þess að sýningasvæði sé yfirgefið eins fljótt og hundur hefur lokið dómi, þannig að fólk safnist ekki saman utan sóttvarnarsvæða að óþörfu.
- Engin veitingasala verður á svæðinu.
- Ekki verður leyft að tjalda á svæðinu, en þátttakendur mega koma með búr og fyrirferðarlitla stóla inn á sóttvarnarsvæði.
- Engin BIS hringur verður og þar af leiðandi engin stærri úrslit verða haldin. Eingöngu verða úrslit í hverri tegund fyrir sig í dómhringjum.
Charlotte Høier (Danmörk), Jussi Liimatainen (Finnland), Laurent Heinesche (Luxemborg), Mikael Nilsson (Svíþjóð), Tino Pehar (Króatía), Þorbjörg Ásta Leifsdóttir (Ísland), Sóley Halla Möller (Ísland), Daníel Örn Hinriksson (Ísland) og Viktoría Jensdóttir (Ísland). Þau Barbara Müller og Svein Bjarne Helgesen duttu nýverið út.
Vegna þessa liggur fyrir að áður auglýstir dómarar á tegundir koma til með að breytast. Sýningastjórn vinnur nú að því að koma saman dagskrá sem gengur upp með öllum þeim breytum sem liggja fyrir, en ekki verður unnt að birta hana fyrr en um miðja næstu viku.
Stjórn félagsins og sýningastjórn sýna því fullan skilning að faraldur af völdum kórónuveirunnar hefur breiðst út undanfarið með hópsýkingum sem getur hafa breytt afstöðu þátttakenda til sýningahalds frá því að skráningu á sýningarnar lauk. Vill stjórn félagsins því koma til móts við félagsmenn sem treysta sér ekki til að mæta og taka þátt af sóttvarnarástæðum. Til að koma til móts við þessa aðila, gefst eigendum skráðra hunda tækifæri til að AFSKRÁ HUNDA SÍNA á sýningarnar og fá sýningagjöld endurgreidd, að frádregnum kostnaði vegna skráningar (500 kr.). Ekki er hægt að velja úr skráðum hundum, heldur gildir afskráning um alla skráða hunda viðkomandi á báðar sýningar. Beiðni um slíkt skal senda í tölvupósti á hrfi@hrfi.is frá og með deginum í dag og fram til miðnættis sunnudaginn 16. ágúst. Ekki verður tekið við beiðnum í gegnum síma.
Í tölvupóstinum þarf eftirfarandi að koma fram:
- Nafn eiganda
- Ættbókarnöfn eða númer hunda (hægt að senda afrit kvittunar úr DKK kerfinu)
- Bankaupplýsingar (reikningsnúmer og kennitala)
Í upphafi næstu viku ætti þá endanlegur skráður fjöldi hunda á sýningarnar að liggja fyrir og hægt að ljúka skipulagi á dagskrá sem verður birt eins fljótt og kostur er.
Við vonum að félagsmenn virði viljann fyrir verkið, sýni breytingunum skilning og taki þátt í því með okkur að gera þetta að ánægjulegum viðburði þar sem öllum reglum og fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnir er fylgt. Við treystum á góða samvinnu við félagsmenn sem eins og alltaf eru lykillinn að því að hægt sé að halda úti starfsemi á vegum félagsins. Félagið hefur leitað til almannavarna og óskað eftir fundi um skipulag sýningar. Fyrirkomulag sýningar getur því breyst enn frekar ef fram koma ábendingar.