Helgina 25. – 26. júní mæta rúmlega 1000 hreinræktaðir hundar af 76 hundategundum í dóm á tvöfaldri hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands. Sýningarnar eru haldnar undir beru lofti í Víðidal og hefjast dómar kl. 9:00 árdegis báða daga og standa fram eftir degi. Áætlað er að úrslit hefjist 14:30 á laugardegi og 15:30 á sunnudegi og þá kemur í ljós hvaða hundar bera af að mati dómara. Megintilgangur hundasýninga er að meta hundana út frá ræktunarmarkmiði hvers kyns og leiðbeina ræktendum þannig í starfi sínu. Sjö dómarar frá Írlandi, Svíþjóð, Bretlandi, Króatíu, Slóvakíu og Noregi dæma í sjö sýningarhringjum samtímis. Gestum gefst kostur á að kynnast hundum og ræða við hundeigendur og sýnendur, auk þess sem á staðnum er fjöldinn allur af sölu- og kynningabásum þar sem ýmis tilboð verða í gangi. Íþróttadeild HRFI mun verða með agility og hoppkeppni í hundafimi á laugardeginum um kl.13. Áhorfendum er leyfilegt að koma með sína eigin stóla og tjöld og sitja við sýningahringi. Sérstakt svæði verður fyrir tjöld, húsbíl, tjaldvagna og fellihýsi fyrir þá sem kjósa að gista á staðnum, salerni verður á staðnum en því miður ekki rafmagn. Vinsamlega athugið að tjöld inná sýningasvæðinu sjálfu mega ekki vera stærri en 3m x 3m og þau verða að vera staðsett minnst 5 metrum frá sýningahringjum. Salerni verða inní reiðhöllinni í Víðidal og kamrar verða á sýningasvæðinu, ungmennadeild mun verða með veitingasölu í stóru tjaldi á sýningasvæðinu. Hér má sjá dagskrá helgarinnar. |
Comments are closed.
|
|