Á morgun föstudaginn 22.06 mun skrifstofan opna kl. 9:30 og loka kl. 14:30 vegna leiks Íslands og Nígeríu á HM. Áfram Ísland!
Lokað er í dag frá hádegi á skrifstofu vegna sýningar. Einnig er lokað mánudaginn 11.júní.
Þreföld útisýning verður haldin helgina 8.-10. júní nk. á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Skráning á sýninguna gekk frábærlega og munu 1.334 skráðir hundar etja kappi á þremur sýningum yfir helgina. Föstudagskvöldið hefst hvolpasýning kl. 18 en þar munu 102 hvolpar keppa um bestu hvolpa sýningar. Á sama tíma fer fram keppni ungra sýnenda en 21 ungmenni eru skráð. Á laugardeginum mæta 614 hundar á Reykjavík Winner og NKU sýninguna en dómar hefjast kl. 9 í öllum hringjum. Alþjóðlega sýning fer fram á sunnudeginum þar sem 618 hundar keppa og byrja allir dómhringir kl. 9:00. Skipulag svæðisins og hringja má sjá hér að neðan, hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri. Dagskrá og PM má finna hér. Bílastæði ættu að vera næg og eru þau sem næst eru merkt inn á myndina hér að neðan en þau dreifast á nokkur svæði í kringum túnið. Ekki verður hægt að leggja við Víðistaðakirkju á laugardegi. Við biðjum félagsmenn að gæta að því að leggja ekki í íbúastæði eða ólöglega. Yfirlit yfir bílastæði má sjá hér að neðan, hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri. Athugið að svæði C verður ekki hægt að nota á laugardeginum. Svæði I eru stæðin með fram Flókagötu milli bílasvæða F og G. Salerni er á svæðinu, grill sem hægt er nýta og nóg af ruslafötum en einnig er ruslagámur og flöskusöfnun fyrir skáta á svæðinu. Félagsmenn eru hvattir til að ganga vel um svæðið og gæta að því að hreinsa upp eftir hundana ásamt því að hirða eftir sig allt rusl. Mjög gott tjaldsvæði er á túninu ef fólk vill gista en skátafélagið Hraunbúar sjá um og reka tjaldsvæðið. Svæðið er vaktað yfir nóttina en Hundaræktarfélag Íslands tekur enga ábyrgð á verðmætum sem kunna að vera skilin eftir.
Íþróttadeild mun sjá um sjoppuna en þau eru í fjáröflun til að geta keypt sér langþráð ný tæki. Við hvetjum alla til að versla hjá þeim og styðja gott málefni í leiðinni. Gestum gefst kostur á að kynnast hundum og ræða við hundaeigendur, ræktendur og sýnendur. Einnig verða sölu- og kynningabásar á staðnum með ýmis tilboð og hvetjum við ykkur til að kíkja á sölubása. Félagið verður einnig með rósettur af öllum stærðum og gerðum til sölu til að fagna góðum árangri. Vinsamlega athugið að lausaganga hunda á svæðinu er stranglega bönnuð og skulu allir hundar vera í taumi og á eru þeir alfarið á ábyrgð eigenda sinna. Við hvetjum félagsmenn til að virða reglur og samþykktir varðandi hundahald. Uppsetning sýningar hefst kl. 19.00 fimmtudaginn 7. júní á Víðistaðatúni og eru allir velkomnir í að aðstoða við uppsetningu.
Sýningarnefnd gefur leyfi þegar sýnendur geta sett upp tjöld við sýningarhringi en það verður þegar uppsetningu er alfarið lokið. Endanleg mynd af skipulagi svæðisins verður birt stuttu eftir uppsetningu sýningarinnar á Facebook síðu félagsins sem og á vefnum en einnig verður birt vegvísun varðandi aðgang og bílastæði á svæðinu. Svæðið verður vaktað yfir helgina en Hundaræktarfélag Íslands tekur enga ábyrgð á verðmætum á sýningarsvæðinu. Vinsamlegast athugið að tjöld við sýningarhringi mega ekki vera stærri en 3m x 3m og þau verða að vera staðsett minnst 2 metrum frá sýningahringjum. Stærri tjöldum má tjalda fjarri sýningarhringjum. Við minnum á að umgengni um svæðið þarf að vera til algjörrar fyrirmyndar og hvetjum við félagsmenn til að nýta sér ruslafötur á svæðinu. |
|