Gerð er krafa um að uppfyllt séu eftirfarandi lágmarksskilyrði:
- Að umsækjandi sé félagsmaður, sé lögráða og með lögheimili á Íslandi.
- Að umsækjandi sé ræktandi með skráð ræktunarnafn og eigi eða hafi átt hunda skráða í ættbók Hrfí, eða hann hafi náð góðum árangri sem sýnandi hunda í a.m.k. 5 ár, eða að hann hafi, á virkan og ábyrgan hátt, unnið með hundum í a.m.k. 5 ár.
- Að umsækjandi hafi starfað á hundasýningum HRFÍ sem ritari eða hringstjóri, að lágmarki tíu sýningum, þar af a.m.k. fjórum sinnum á alþjóðlegri sýningu.
Umsækjandi er metinn af sýningadómaranefnd sem kallar umsækjanda fyrir og spyr m.a. út í reynslu, þekkingu , getu til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og á ensku og aðstæður og vilja til að takast á hendur dómaranám.
Ath. að dómaranemar bera almennt kostnað af dómaranámi sjálfir, þar með talið af námskeiðum, dómaranema- og dómaraefnisstörfum, ferðum og uppihaldi.
Umsækjendur sem standast allar ofangreindar kröfur þurfa að auki að standast skriflegt inntökupróf þar sem prófuð er þekking á byggingu, formgerð og hreyfingu hunda, erfðafræði, heilsu og eðli hunda, ræktunarmarkmiðum, framkomu dómara, meginreglum og tækni við dóm, sýningareglum HRFÍ, reglum FCI fyrir sýningadómara og öðrum viðeigandi reglum.
Á síðari stigum mun DKK aðstoða nefndina við mat á áframhaldandi námi.
Umsókn skal fylgja ferilskrá þar sem fram kemur nafn, heimilisfang, aldur, menntun, tungumálakunnátta, reynsla af hundahaldi, ræktun, þátttöku og störfum á hundasýningum, svo og öðru starfi innan Hrfí. Þá skal gerð grein fyrir því af hverju viðkomandi vill verða sýningadómari og hvað hann telur sig hafa fram að færa sem slíkur.
Umsóknarfrestur er til og með 12. júlí n.k. Umsóknum skal skilað í tölvupósti á netfangið syningadomaranefnd@hrfi.is
Sýningadómaranefnd.