Í lok árs er við hæfi að líta um öxl, meta árangur og læra af reynslunni, en ekki er síður mikilvægt að huga að framtíðinni. Félagið okkar er einstakt, enda byggir það á óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi þeirra sem sameiginlega eiga hunda sem áhugamál. Án félagsmanna væri ekkert félag. Við erum sterk sem heild, ekki síst þegar við erum samstíga.
Innan HRFÍ starfa margir smærri hópar félagsmanna sem vinna af alúð að framgangi þess hluta starfseminnar sem hjarta þeirra stendur næst. Góður hópur með framlagi margra er jarðvegur nýrra hugmynda. Hópavinna tekur tíma og krefst á stundum þolinmæði, tillitssemi og málamiðlana, en hún skilar sér í farsælli niðurstöðu sem fleiri geta sameinast um. Afraksturinn er framþróun og vöxtur félagsins okkar.
Árangur næst ekki af sjáfum sér, það þarf að hafa fyrir honum. Til að verða árangursríkt félag, þurfum við að tryggja að innviðir félagsins styðji öflug samskipti og að allir félagsmenn finni að þeir séu velkomnir, að framlag þeirra skipti máli og vinnusemi og ábyrgð þeirra sé metin.
Í félaginu okkar eru ærin verkefni sem bíða okkar á nýju ári og ég hlakka til að vinna í góðum hópi félagsmanna að því að gera félagið okkar enn öflugra og sýnilegra.
Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir það liðna.
Herdís Hallmarsdóttir, formaður HRFÍ