- Hvernig miðar vinnu við nýtt áhættumat fyrir íslensk stjórnvöld vegna innflutnings hunda og katta ?
- Hyggst ráðherra innleiða svokallaðan gæludýrapassa, eða gæludýravegabréf, sem hefur verið tekinn upp í flestum Evrópulöndum, og heldur utan um þau skilyrði sem uppfylla þarf svo flytja megi gæludýr milli landa?
- Telur ráðherra að líta eigi til annarra landa, t.d. Ástralíu og Nýja-Sjálands, þar sem dýr sæta 10 daga einangrun með mismunandi strögum skilyrðum eftir því hvaðan þau koma ?
- Vinnan við áhættumatið stendur enn yfir, verkið er unnið af Dr. Preben Willeberg sem er fyrrverandi yfirdýralæknir Danmerkur. Upphaflegar vonir stóðu til að skýrsla um þessi efni yrði tilbúin í apríl á þessu ári, en við vinnuna hafi komið í ljós að verkið er töluvert umfangsmeira en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Íslenskir sérfræðingar hafa lagt fram gögn og aðstoðað Dr. Willeberg í sinni vinnu og að nú standi vonir til að skýrsla um þetta efni liggi fyrir á árinu og eigi síðar en í árslok.
- Niðurstöðu áhættumatsins sem í vinnslu er á að nýta sem grunn til frekari skoðunar á þessum svokölluðu gæludýravegabréfum að því að honum skilst.
- Við vinnuna við áhættumatið verður m.a. litið til framkvæmda og reynslu annarra ríkja og þeirra lausna sem þau hafa gripið til í vörnum gegn dýrasjúkdómum. Það á að kanna hvort unnt sé að stytta sóttkvíartíma í einhverjum tilfellum, m.a. með hliðsjón af nýjum rannsóknaraðferðum sem hafa verið þróaðar. Að þvi leyti til er eðlilegt að líta m.a. til annarra landa, svo sem Ástralíu og Nýja Sjálands.
Þorgerður þakkar svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hvetur hann til að halda sínu fólki við efnið svo hraða megi áhættumatinu sem mest. Þá bendir hún á að framþróun hafi orðið í dýralækningum, í lyfjum og slíku og að þeir sjúkdómar sem verið er að verja landið fyrir sé í mörgum tilfellum orðið hluti af staðabólusetningum hunda og katta eða það er afar auðvelt að greina þá með prófunum. Það sé hægt að breyta þessu fyrirkomulagi í þágu dýranna okkar, í þágu dýraverndar og ekki síður í þágu okkar mannfólksins. Þá bendir Þorgerður Katrín á að ekki hafði verið tekin nein vísindaleg ákvörðun varðandi þá niðurstöðu að fara með einangrunina úr sex mánuðum í þrjá og síðan úr þremur mánuðum í 4 vikur. Það hafi orðið framþróun í vísindum, hvort sem mönnum líkar betur eða verr og ekki hægt lengur að beita fyrir sig gamaldags einangrunarsjónarmiðum þegar um er að ræða innflutning á gæludýrunum okkar. Reglurnar sé hægt að endurskoða án þess að verið sé að ógna öryggi dýra, manna eða umhverfis.
Hægt er að horfa á umræðurnar á vef alþingis, eða lesa þar umræðurnar í heild: https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20181015T163930