
Hér á landi eru nú ræktuð fjölmörg hundakyn undir merkjum félagsins, þannig hafa 143 tegundir verið skráðar hjá félaginu. Ræktendur félagsins eru metnaðarfullir og hafa heilbrigði og skapgerð að leiðarljósi. Er umtalað meðal erlendra gesta sem hingað koma á vegum félagsins hversu ötult ræktunarstarf er hér unnið og það þrátt fyrir hindranir og erfiðar aðstæður. Þá getur félagið verið stolt af því ötula starfi sem unnið er innan deilda félagsins og miðar að því að rækta mismunandi eðli ýmissa hundakynja. Þannig eru haldin veiðipróf, fjárhundaeðlipróf og í vinnslu er að taka upp sleðahundapróf. Eins geta allir hundar tekið þátt í hlýðni og hundafimi á vegum félagsins.
Félagið er öflugt í baráttu fyrir bættri hundamenningu og í gegnum tíðina hafa ýmis mál náð fram að ganga fyrir tilstuðlan félagsins. Má þar nefna afnám hundabanns árið 1984 í Reykjavík eftir harða baráttu félagsins. Hundurinn hefur fylgt manninum í þúsundir ára, mikilvægt er að vinna að sambýli hunda og manna í sátt og með jákvæðum huga.
Hundaeigendur hafa litla aðstöðu hér á höfuðborgarsvæðinu til að vinna og þjálfa hundana sína. Brýnt er að bætt verði úr aðstöðuleysinu og mun félagið á næstu árum leggja áherslu á að skapa betri aðstöðu fyrir hundaeigendur í leik og starfi með ferfætta félaga sínum, hundinum.
Við óskum ykkur hjartanlega til hamingju með afmælið og vonumst til að þið njótið dagsins með ferfættum vinum ykkar.
F.h. stjórnar og skrifstofu
Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hrfí