Útisýningum mun fjölga, en fyrirhugað er að tvær tvöfaldar sýningar verði haldnar á útisvæði í Víðidal, í júní og í ágúst. Þá kynnum við til sögunnar Norðurlandasýningar, en samtök hundaræktarfélaga á Norðurlöndum, Nordic Kennel Union (NKU) samþykktu nýverið umgjörð um sýningar sem haldnar verða undir nafni samtakanna frá og með árinu 2018. HRFÍ er aðili að samtökunum og verða þrjár sýningar félagsins árið 2018 Norðurlandasýningar.
Á Norðurlandasýningum verða veitt Norðurlandameistarastig, Nordic Show Certificate, með svipuðum hætti og CACIB eru veitt á alþjóðlegum FCI sýningum. Tvö stig eru í boði í hverju viðurkenndu hundakyni eða afbrigði þess, líkt og alþjóðlegu stigin, en ólíkt þeim ganga stigin til sigurvegara í besta rakka og bestu tík tegundar óháð keppnisflokki þeirra. Þannig geta bæði öldungar og ungliðar hlotið Norðurlandameistarastig. Veitt eru varastig fyrir annað sæti.
Norðurlandasýningar geta ekki jafnframt verið FCI (alþjóðlegar) sýningar og að lágmarki helmingur dómara þarf að koma frá a.m.k. þremur Norðurlöndum. Íslensk meistarastig verða veitt á Norðurlandasýningum.
Margir þekkja NORCH titilinn sem hingað til hefur verið veittur hundi með meistaratitla frá a.m.k. þremur Norðurlöndum. Sá titill verður ekki í boði frá og með 1. janúar 2020, en nýr titill með sama nafni, Nordic Show Champion (ný skammstöfun: NORDICCH) verður veittur í tengslum við NKU sýningarnar frá og með næsta ári.
Skilyrði hans verða eftirfarandi:
- Hundurinn er meistari í heimalandi sínu (ISCH í tilviki íslenskra hunda)
- Hundurinn hefur fengið Norðurlandameistarastig á sýningum í a.m.k. þremur Norðurlöndum frá þremur mismunandi dómurum, a.m.k. eitt þeirra eftir 24 mánaða aldur. Vegna einangrunarmála er í tilviki Íslands þó fullnægjandi að stigin þrjú séu veitt á Íslandi.