Svör bárust frá Ráðuneytinu nú í febrúar þar sem kom fram að styttist nú í skýrsluna og að Ráðuneytið vilji hraða málinu. Í svarinu er vísað til þess að orsakir tafa áhættumatsins séu meðal annars þær að það skorti upplýsingar og rannsóknarniðurstöður sem séu ekki til.
Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi þess að einangrunarvistun sú sem nú er við lýði þar sem dýr eru einangruð í fjórar vikur við komu til landsins hefði í öllu falli átt að byggja á rannsóknarniðurstöðum. Við teljum þó afar jákvætt að nú sé verið að vanda til verka og að Ráðuneytið lýsi yfir vilja til að hraða málinu. Við væntum því skýrslunnar innan skamms.
Hér má sjá svör Ráðuneytisins við erindi okkar:
Vísað er bréfs Hundaræktarfélags Íslands frá 15. janúar 2019.
Staða þessa máls er í raun óbreytt frá fyrri svörum, að því leyti að skýrslan hefur enn ekki borist ráðuneytinu. En samkvæmt okkar upplýsingum þá styttist mjög í að hún verði tilbúin. Ráðuneytið hefur haft uppi talsverðan þrýsting á að fá hana í hendur sem fyrst, til þess að hægt verði að halda áfram með málið.
Orsakir þeirra tafa sem hafa orðið eru margvíslegar. Bæði er þar um að ræða að verkið hefur reynst talsvert umfangsmeira og flóknara en áður var talið. Það er bæði vegna skorts á upplýsingum og rannsóknaniðurstöðum, sem hreinlega eru ekki til, auk þess sem skoða hefur þurft fleiri sjúkdóma og skjöl tengd þeim. Þá hafa einnig orðið tafir vegna aðstæðna og annarra verka Prebens.
Ráðuneytið ítrekaði síðast sínar óskir þann 3.janúar 2019 og lagði áherslu á að skýrslan kæmi nú um mánaðamótin. Hún hefur ekki borist þegar þetta er skrifað.
Ráðuneytið mun skoða og rýna skýrsluna þegar hún berst, og fyrr er ekki hægt að segja eða lofa neinu.
Það er hins vegar fullur vilji til þess að málinu verði hraðað og að farsæl lausn finnist.