Rallý hlýðni

Vinnuhundadeild HRFÍ heldur reglulega rallý hlýðni próf yfir árið. Rallý hlýðni hentar öllum hundum af öllum tegundum, ekki þarf að vera með ættbókarfærðan hund til að taka þátt í rallý hlýðni prófum. Dagskrá prófa er hægt að sjá í viðburðadagatali félagsins (undir heim) eða á síðu Vinnuhundadeildar.

Hvað er rallý hlýðni?

Rallý hlýðni (e. rally obedience) er hunda íþrótt sem byggist á hefðbundinni hlýðni (e. obedience). Í rallý framkvæmir teymið, hundur og stjórnandi, mismunandi æfingar í fyrirfram uppsettri braut. Ólíkt hefðbundinni hlýðni, þar sem teymið bíður eftir skipun prófdómara fyrir hverja æfingu, heldur teymið áfram í brautinni (sjálft) á jöfnum og eðlilegum hraða. Hundurinn er staðsettur við vinstri hlið stjórnandans í brautinni, nema annað sé tekið fram, í hámark hálfs meters fjarlægð.

Rallý braut er saman sett af 10-20 skiltum með mismunandi æfingum. Æfingarnar eru framkvæmdar eins og skiltin í brautinni gefa til kynna um, með hundinn í hælstöðu. Áhersla er lögð á samvinnu hunds og stjórnanda í öllum æfingum og á milli æfinganna. Stjórnanda er leyft að nota bæði skipun og líkamstjáningu samtímis í prófi en skipanir skulu vera stuttar og lágstemmt hrós er leyfilegt. Stjórnandi má ekki snerta hundinn á meðan farið er í gegnum brautina. Í keppni byrjar teymið með 100 stig og dómari dregur frá stig fyrir þær æfingar sem ekki eru nægilega vel framkvæmdar eða ef teymið gerir villur í brautinni, mismikið er dregið af fyrir mismunandi villur. Matið er heilt yfir ekki eins strangt og í hefðbundinni hlýðni. Keppt er í mismunandi flokkum og eru æfingarnar mismargar og miserfiðar eftir flokkum. Skiltin byggjast að stórum hluta á æfingunum; að setjast, leggjast og standa, sem eru framkvæmdar á mismunandi stöðum, í mismunandi röð og oftast í sambland við aðrar æfingar. Í sumum æfingum þarf stjórnandinn að vísa hundinum fram fyrir og/eða aftur fyrir sig, í kringum sig og skipta um hliðar.

Rallý byggir því mikið á samspili og leikni hunds og stjórnanda sem teymis. Rallý er hunda íþrótt sem auðvelt er að byrja að æfa heima, inn í stofu eða úti í garði til dæmis, þar sem það þarf ekki endilega mikið pláss til að byrja með. Auðvelt er að byrja að æfa og kenna eina og eina æfingu og komast síðar í röð mismunandi æfinga í braut.